Single Blog Title

This is a single blog caption

Nemendur áhugasamir um Sjávarklasann

Margir góðir gestir heimsóttu Hús sjávarklasans í liðinni viku. Það komu m.a. meistaranemar í nýsköpunar og frumkvöðlafræðum frá Háskóla Íslands og fengu þeir kynningu á starfsemi Íslenska sjávarklasans, leiðsögn um Hús sjávarklasans, kynningu á ýmsum vörum úr sjávarafurðum og loks kynningu frá nokkrum fumkvöðlum í Húsi sjávarklasans um þeirra vegferð og starfsemi.

Auk þess kom hópur framhaldsskólanema frá Verslunarskóla Íslands, Fjölbrautaskólanum í Breiðholti, Ármúla og Garðabæ og Framhaldsskólanum í Vestmannaeyjum í leit að innblæstri fyrir frumkvöðlaverkefni sem þau áttu að vinna tengt sjávarútvegi, hafinu og höfninni. Þau voru þátttakendur í svokölluðum frumkvöðlabúðum sem kenndar eru í Fjölbrautaskólanum í Breiðholti. Þetta var afar skemmtilegt sólarhringsverkefni sem nemendurnir tóku þátt í ásamt skólum frá Danmörku, Finnlandi og Noregi og fengu til þess styrk frá Erasmus+ og úr Sprotasjóði. Í frumkvöðlabúðunum fengu nemendurnir ákveðið verkefni sem þau áttu að koma með lausn á.

Nemendurnir kynntu svo verkefni sín fyrir dómnefnd á föstudaginn sl. og var besta verkefnið valið. Í dómnefnd voru þær Rósa Gunnarsdóttir frá Innoent, Guðrún Hrefna Guðmundsdóttir skólameistari FB og Eva Rún Michelsen frá Íslenska sjávarklasanum. Það sem nemendurnir kynntu voru m.a. fæðubótarefni úr sjávarafurðum, förðunarhreinsi úr fiskolíu, nýjar og betrumbættar umbúðir fyrir harðfisk. Vinningsliðið kom með hugmynd að fyrirtækinu KYRJA sem framleiða á hlaup unnið úr fiskigelatini ásamt hunangi og náttúrulegum bragðefnum. Unnu þau frumgerðir að umbúðum í FabLab.

Við þökkum þessum nemendum kærlega fyrir sýndan áhuga og komuna í Hús sjávarklasans.