Hús sjávarklasans er samfélag yfir 50 fyrirtækja og frumkvöðla í hafsækinni starfsemi. Hér eru fyrirtæki í fiskeldi, fisksölu, sjávarútvegstækni, hugbúnaði, hönnun, líftækni, snyrtivörum og ýmsu öðru. Hús sjávarklasans er samfélag þessara fyrirtækja og vettvangur fyrir þau að skapa saman ný verðmæti. Þúsundir innlendra og erlenda gesta heimsækja Hús sjávarklasans á hverju ári. Íslenski sjávarklasinn rekur Hús sjávarklasans í samstarfi við Faxaflóahafnir, en húsið var áður kallað Bakkaskemman og á sér ríka sögu. 

SAGA BAKKASKEMMUNNAR

Hús sjávarklasans er á efri hæð gamals hús sem stendur við Grandagarð 16 við Gömlu höfnina í Reykjavík. Húsið er á tveimur hæðum og er hvor þeirra um 2.700 fermetrar.

Húsið var oft kallað Bakkaskemman og stundum Bakkaskáli en byggingu þess lauk árið 1967. Það hefur alla tíð verið í eigu Reykjavíkurhafnar og var nýtt sem hafnarskemma fyrstu árin eftir byggingu. Hafskip var þá með stærstan hluta hússins á leigu.

Hugmyndin var að Bakkaskemman yrði nýtt undir fiskiðnað og á 8. áratugnum setti Bæjarútgerð Reykjavíkur upp kæligeymslu í húsinu. Um fjögurra ára skeið var Togaraafgreiðslan svo með starfsemi sína í húsinu en hún var lögð niður árið 1984. Þá hafði öll löndun togara í Reykjavíkuhöfn verið flutt hingað í Vesturhöfnina og árið 2006 flutti Fiskmarkaður Íslands svo í húsið. Fiskmarkaðurinn er enn á neðri hæðinni en HB Grandi og nokkur smærri fyrirtæki hafa þar einnig aðstöðu.

Hér á efri hæðinni var Hampiðjan hins vegar með uppsetningu flottrolla um árabil og árin 2009-2010 var hér frumkvöðlasetur skapandi greina. Hæðin hafði staðið auð um nokkurn tíma þegar ákveðið var breyta hluta hennar í Hús sjávarklasans árið 2012. Hús sjávarklasans hefur vaxið síðan og nær nú yfir alla efri hæð hússins.

HÉR ERUM VIÐ